Nýr oddviti í Tálknafjarðarhreppi

Eva Dögg Jóhannesdóttir oddviti Tálknafjarðarhrepps

Á fundi hreppsnefndar Tálknafjarðarhrepps þann 19. september var Eva D. Jóhannesdóttir kjörin oddvita nefndarinnar með þremur atkvæðum. Sitjandi oddviti Indriði Indriðason bauð sig einnig fram.

Í upphafi fundar gerði Eva Dögg athugasemdir við boðun fundarins, fundurinn hefði átt að vera haldinn í ágúst enda væri engin hefð fyrir því að sveitarstjórn væri í fríi í tvo mánuði. Síðasti fundur var haldinn í júní. Indriði óskaði eftir afbrigði við dagskrá og að við bættust kjör oddvita og varaoddvita en þeim liðum hafði verið frestað á síðasta fundi.

Að sögn Evu Daggar hefur samkomulagið í sveitarstjórn ekki verið með besta móti en er að batna núna. Mikilvægt þótti að dreifa valdinu en Indriði hefur bæði verið sveitarstjóri og oddviti. Hún þvertekur fyrir að komin sé kosningaskjálfti, nýtt oddvitakjör hafi einungis verið þáttur í að bæta samskipti, upplýsingaflæði og samvinnu innan sveitarstjórnar.

bryndis@bb.is

DEILA