Mikil gerlamengun á sund- og baðstöðum

Hellulaug í Flókalundi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Í greinargerð Antons Helgasonar, forstöðumanns Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, með fundargerð Heilbrigðisnefndarinnar frá því í lok ágúst kemur fram að víða eru gerlatölur langt yfir mörkum. Viðmiðunargildi eru 0-500 gerlar í 100 ml og að hámarki mega þeir vera 1000 talsins. Anton skrifar að við sýnatökur í sundlaugum og heitum pottum hafi mælst yfir 200.000 gerlar í 100 ml. Hann tekur fram að ýmsir sjúkdómar, þar á meðal mjög alvarlegir sjúkdómar, geti borist með baðvatni ef ekki er hugað nægjanlega vel að sótthreinsun. Algengustu sjúkdómar sem tengja má sundlauganotkun eru sýkingar í slímhimnum og í sárum og rispum á húð.  Slíkar sýkingar eru mögulegar þar sem slímhimnur og húð eru í nánu sambandi við örverur í baðvatninu.

„Það hefur lengi verið tíðkað að hengja boðbera slæmra tíðinda. Þannig varð í sumar uppákoma vegna skólpmengunar vegna bilunar í dælustöð í Reykjavík. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgdist með og tók sýni meðfram strandlengjunni. Það sem olli fjölmiðlafári í sumar vegna skólpmengunar var strandsjór sem var allstaðar undir 1000 saurgerlar í 100ml,“ skrifar Anton.

smari@bb.is

DEILA