Ný tækni hefur rutt sér til rúms í lagningu ljósleiðara sem felst í því að í stað hefðbundinna jarðstrengja sem eru ýmist grafnir í skurði eða plægðir niður eða þá nokkuð sver rör, sem eru dregnir í strengir eru nú lögð rör sem eru tiltölulega grönn og strengjum síðan blásið í rörin með sérstakri vél.
Fyrir aðeins 3-4 árum voru notuð rör sem voru allt að 50 mm í þvermál og í þau voru síðan dregnir hefðbundnir jarðstrengir sem þýddi að fyrst þurfti að skjóta bandi í rörið og draga stenginn á því og á 2-300 metra fresti þurfti að opna inn á lögnina því að ekki var hægt að draga í meira í einu vegna þyngdar strengsins. Var því frekar tímafrekt að draga strengi í rör.
Nú er öldin önnur, rörin eru riffluð að innanverðu til að minnka núningsviðnám og vélin ýtir strengjum beint í enda rörsins og svo er blásið lofti meðfram strengnum þannig að hann fleytist áfram á því. Strengirnir sem eru notaðir eru sérstaklega hannaðir til þess að blása í rör og eru frá 2,5 mm og upp í 11 mm í þvermál. Rörin eru af nokkrum stærðum en Snerpa notar yfirleitt 8 mm rör fyrir heimtaugar og 14 mm rör fyrir stærri strengi. Þó að flestar heimtaugar séu 40-50 metrar þá er hægt að blása með þessarri vél nokkra kílómetra í einu við bestu aðstæður en lengst hefur Snerpa blásið um 900 metra í einu lagi.
Til að blása strengjum sem lengst er nauðsynlegt að hafa öfluga loftpressu og Snerpa keypti á síðasta ári loftpressu sérstaklega hannaða fyrir blástursvélina sem getur framleitt allt að 15 bör en venjulegar pressur framleiða jafnan 8-10 bör. Pressan er þó ekki stærri en svo en að hún passar ágætlega inn í sendibíl.
Blástursvélin kemur frá Bretlandi og er innan við tugur véla af þessarri gerð í notkun á Íslandi en nokkuð fleiri ljósleiðarablástursvélar eru til af smærri gerð sem er framleidd í Sviss.