Lektor gagnrýnir áhættumat Hafró

Sjókvíar í Tálknafirði.

Margar aðferðir eru þekktar til að minnka hættu á erfðablöndun eldisfisks við villta stofna og að mati Ólafs Sigurgeirssonar, lektors í fiskeldi við Háskólann á Hólum, væri fróðlegt að sjá útkomu áhættumats Hafrannsóknastofnunar ef þeim aðferðum væri bætt inn í reiknilíkanið. Grein eftir Ólaf birtist í Kjarnanum í gær. Það sem helst kemur til greina er útsetning seiða seint um sumar eða að hausti sem og útsetning á stórseiðum (stærri en 500 g).

Ólafur segir að haustseiði eða stærri seiði sem sleppa að hausti til, eftir að nátt­úru­leg ljóslota tekur að stytt­ast og göngur villtra seiða eru afstaðn­ar, eru talin vera mun minni ógn og afar ólík­leg til að bland­ast við villta laxa­stofna samn­borið við vorseiði. Sam­an­burður á lífslíkum haustseiða og vorseiða í hafi eru taldar vera 1:39, sumsé að fyrir hvert haustseiði sem lifir þrauka 39 vorseiði.

Á æviskeiði eldisfisks stafar mest hætta af fiski sem sleppur sem seiði og af kynþroska fiski. Ólafur segir að með ljósabúnaði á kvíum megi draga verulega úr kynþroska og bendir á fjölda norskra rannsókna. Hann telur einnig að Hafrannsóknastofnun ofmeti verulega fjölda kynþroska laxa úr síðbúnum strokum en í áhættumatinu segir stofnunin að 15% fiska úr síðubúnu stroki nái kynþroska og leiti upp í ár. „Ekki kemur fram hvernig sú tala er valin eða við hvaða gögn hún styðst. Virð­ist þar vera um veru­legt ofmat að ræða enda væri kyn­þroski gríð­ar­legt vanda­mál í lax­eldi ef rétt væri. Það er hins­vegar ekki raun­in,“ segir í greininni.

Hann lýkur greininni á þessum orðum:

„Til­lögur áhættu­mats­skýrsl­unnar eru að banna eldi á kvíum í Ísa­fjarð­ar­djúpi, Stöðv­ar­firði og tak­marka eldi í Berufirði. Fróð­legt væri að skoða hver útkoma áhættu­matslík­ans­ins er ef skil­yrði eru sett um að leyfi­legur útsetn­ing­ar­tími göngu­seiða og stórseiða á þessum svæðum sé tak­mark­aður við lok sum­ars og haust, í ljósi upp­lýs­inga um að þau eigi sér lít­illar lífs von í nátt­úr­unni ef þau sleppa. Jafn­framt væri kveðið á um að full­nægj­andi lýs­ing væri í kví­unum til að hindra kyn­þroska.“

smari@bb.is

DEILA