Kvótakerfi frumbyggja í kastljósi

Fiona McCormack.

Kvótakerfi frumbyggja á Nýja Sjálandi verður til umfjöllunar á hádegisfyrirlestri Fiona McCormack í Háskólasetri Vestfjarða í dag. Kvótakerfið var tekið upp árið 1992 og var því ætlað að endurvekja réttindi Mára til fiskveiða og styrkja þannig atvinnuhætti frumbyggja landsins. Fiona McCormack, prófessor við mannfræðideild Háskólans í Waikato á Nýja Sjálandi, hefur rannsakað áhrif kerfisins og mun hún í fyrirlestrinum m.a. fara yfir þau tækifæri og þær takmarkanir sem hafa fylgt kerfinu.

Árið 1992 var undirritaður sáttmáli sem staðfesti að Márar áttu ekki aðeins hagsmuna að gæta við fiskveiðar út frá hefðarétti heldur einnig viðskiptalega hagsmuni sem höfðu nær þurrkast út á nýlendutímum landsins. Réttindi Máranna voru því endurvakin með gildistöku kvótakerfis,  Iwi Settlement Quate (ISQ), sem átti að gera Márum kleift að komast aftur inn í sjávarútveginn. Þessu markmiði hefur þó ekki verið náð að fullu og flestir frumbyggjar leigja frá sér veiðiréttinn frekar en að nýta hann sjálfir.

Hádegisfyrirlesturinn fer fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða kl. 12.10-13.00 og er opinn öllum áhugasömum.

smari@bb.is

DEILA