Gefur kost á sér á ný

Gylfi stefnir á oddvitasæti Viðreisnar.

Gylfi Ólafsson ætlar að gefa kost á sér til að leiða lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi í Alþingiskosningunum í október, en hann var oddviti listans í kosningunum í fyrra. Gylfi var nokkuð langt frá því að ná kjöri, en flokkurinn hlaut 6,2% atkvæða. Hann hefur starfað sem aðstoðarmaður fjármálaráðherra á kjörtímabilinu. „Ég tel mig hafa erindi á þing, meðal annars sem rödd ungs fjölskyldufólks,“ segir Gylfi og bætir við að Viðreisn sé stolt af því sem hefur áunnist á síðasta ári og nefnir ábyrga hagstjórn, lögfestingu jafnlaunavottunar og sterkan neytendavinkil í landbúnaðarmálum. „Þá hafa stór skref verið stigin til að skapa þá umgjörð um fiskeldi sem þarf svo það geti orðið mikilvægur hornsteinn í samfélaginu sem sátt er um og sómi að. Þar eins og í öðru er mörgu ólokið. Ég vil vinna áfram að okkar málum með fagleg vinnubrögð og gagnsæi að leiðarljósi, og taka almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni,“segir Gylfi.

smari@bb.is

DEILA