Erlendir nemar læra um loftslagsbreytingar

Nemendahópurinn við komuna til Ísafjarðar.

Fyrir helgi kom hópur 17 bandarískra nemenda til Ísafjarðar til að taka þátt í annarlöngu vettvangsnámi á vegum School for International Training (SIT) í Vermont í Bandaríkjunum. Námsleiðinni, Iceland and Greenland Climate Change and the Arctic var hleypt af stokkunum haustið 2016 í samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða og eru viðfangsefni hennar loftslagsmál á Norðurslóðum. Nemendur verja þrettán vikum á Íslandi og dvelja meðal annars á Ísafirði, á Akureyri og í Reykjavík. Einnig er farið í tveggja vikna heimsókn til Grænlands.

Á Ísafirði dvelur hópurinn í rúmlega þrjár vikur og líkt og nemendur sumarskóla SIT gista þessir nemendur hjá fjölskyldum og fá þannig tækifæri til að kynnast fólki á svæðinu náið. Dvöl í heimahúsum hefur verið í boði frá því sumarið 2012 en í gegnum árin hafa rúmlega 70 fjölskyldur tekið að sér að hýsa nemendur SIT skólans. Heimagistingin hefur því gefist mjög vel; margir hafa tengst sterkum böndum og sumar fjölskyldur hafa tekið þátt ár eftir ár, önn eftir önn. Háskólasetrið kann vel að meta framlag þessara fjölskyldna.

Með tilkomu þessa nýja vettvangsskóla urðu til ný rannsóknar- og kennslutengd stöðugildi á Vestfjörðum. Daniel Govoni, doktorsnemi sem búsettur er á Ísafirði, er nú fagstjóri námsins og með honum starfa þær Jennifer Smith og Alexandra Tyas sem báðar hafa útskrifast úr meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun.

smari@bb.is

DEILA