Ríkiskaup auglýstu í júlí til sölu þrjár húseignir sem tilheyrðu héraðsskjólanum á Núpi í Dýrafirði. Um er að ræða skólabyggingu og tvær heimavistir, alls rúmlega 4.500 fermetra. Guðmundur Ástvaldsson á Núpi átti að sýna áhugasömum eignirnar en enginn hefur haft samband við hann eftir því sem kemur fram í samtali við Guðmund í Morgunblaðinu í dag. Sumarhótel hefur verið rekið á Núpi en starfsemi hefur verið lítil yfir veturinn.
Eignirnar þrjár á Núpi sem ríkið vill selja eru þessar: Gamli skóli, sem er elsta húsnæði fyrrverandi héraðsskólans á Núpi. Húsnæðið er upprunalega byggt árið 1931 og með síðari viðbyggingum. Húsið er að hluta á þremur hæðum en tveggja hæða álmur til beggja handa og íþróttahús við bakhlið. Í húsinu voru skólastofur, heimavist, kennaraíbúðir, matsalur, eldhús, sundlaug og íþróttahús. Samkvæmt Þjóðskrá Íslands er stærð hússins 1.419 fermetrar, brunabótamat er kr. 225.550.000 og fasteignamat er kr. 27.955.000.
Heimavist, kennslustofur og íbúðir. Um er að ræða tvær aðalbyggingar með tengibyggingu. Húsin eru tvær hæðir og kjallari. Bygging húsanna hófst árið 1964. Í húsinu eru þrjár íbúðir og 36 herbergi, kennslustofur, matsalur, eldhús og þvottahús. Í tengibyggingu eru skrifstofur og móttaka en húsnæðið allt er í dag leigt undir ferðaþjónustu. Heildarflatarmál húsanna er 2.437 fermetrar. Brunabótamat kr. 616.550.000 og fasteignamat kr. 63.910.000.
Skólastjórahús og heimavist. Um er að ræða húsnæði, áður heimavist (kvennavist) héraðsskólans ásamt íbúð. Stærð hússins 733 fermetrar. Húsnæðið er byggt á árunum 1954 til 1956. Brunabótamat er kr. 151.950.000 og fasteignamat er kr. 16.640.000.
smari@bb.is