Hafrannsóknastofnun hefur lokið við rannsókn á erfðablöndun eldislax og náttúrulegs lax í laxastofnum á Vestfjörðum. Vísað var í rannsóknina í áhættumati Hafrannsóknastofnunar vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi en þar var um óbirt gögn að ræða. Skýrslan er nú komin út. Í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun kemur fram að í rannsókninni var erfðablöndun könnuð meðal náttúrulegra laxa í nágrenni eldissvæða á Vestfjörðum. Einnig var skyldleiki stofna svæðisins við aðra stofna á Íslandi kannaður með samanburði við 26 laxastofna. Samtals voru 701 seiði úr 16 vatnsföllum á svæðinu frá Súgandafirði til Rauðasands erfðagreind með 15 örtunglum.
Vísbendingar um erfðablöndun mátti greina í sex vatnsföllum og þar af voru skýr merki í Botnsá í Tálknafirði og í Sunndalsá í Trostansfirði sem er einn af innfjörðum Arnarfjarðar. Greining á skyldleika vestfirsku laxastofnanna við aðra laxastofna á Íslandi bendir til að þeir myndi sérstakan erfðahóp og eru því líklega mikilvægir með tilliti til líffræðilegs fjölbreytileika.
Erfðablöndun við eldislax hefur breytt erfðasamsetningu margra villtra laxastofna á náttúrulegu útbreiðslusvæði lax í heiminum og valdið breytingum á þáttum sem snúa að lífsögu þeirra og hæfni. í Noregi er talið að erfðablöndun sé helsta ógnin við villta laxastofna þar í landi.
Á Íslandi hefur sjókvíaeldi á laxi af norskum uppruna verið stundað með hléum í nokkurn tíma og hefur framleiðslan jafnan verið fremur lítil eða nokkur þúsund tonn á ári. Leyfi hafa nú verið veitt fyrir 40.000 tonna eldi og til viðbótar bíða mats á umhverfisáhrifum áætlanir um tugþúsunda tonna framleiðslu. Aðeins má stunda laxeldi í sjókvíum á ákveðnum svæðum við landið. Á þeim svæðum eru almennt takmarkaðar upplýsingar um stofna laxa og laxfiska og möguleg áhrif eldisins á villta laxastofna hafa til þessa ekki verið rannsökuð.
smari@bb.is