Segir Þorgerði Katrínu sýna léttúð og fullkomið úrræðaleysi

Haraldur Benediktsson er 1. þingmaður NV-kjördæmis og fyrrverandi formaður Bændasamtakanna.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, segir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðarráðherra taki vanda sauðfjárbænda af mikilli léttúð. Þetta kemur fram í viðtali við Harald í blaðinu Vesturland. „Ástandið núna er mesta vá sem við höfum séð í sauðfjárrækt í langan tíma. Það sem hryggir mig mest er hvað menn hafa tekið þessu af mikilli léttúð, og sérstaklega landbúnaðarráðherra,“ segir Haraldur og bætir við: „En, að mæta þessu af svona léttúð sem mér hefur fundist ráðherrann gera, ber vott um fullkomið úrræðaleysi og áhugaleysi á að takast á við starfið sitt.“

Hann segir að það sé vitað að bændur fóru til ráðherra í mars/apríl með upplýsingar um hvert stefndi í sauðfjárbúskapnum. „Þeir báðu hana að beita sér fyrir því að sláturhúsin mættu vinna saman að því að flytja kjöt út á erlenda markaði. Þetta hefði orðið til þess að létta á birgðum. Þeir voru ekkert að biðja um neina eða verulega peninga þarna í upphafi. Það er heldur alls engin lausn í þessum málum að opna hirslur ríkisins og byrja að ausa út fé. Ráðherrann brást við þessu með því að segja við bændur að þeir skyldu spyrja Samkeppniseftirlitið. Það biður svo um upplýsingar sem bændur mega ekki safna. Svona sirkus er öll meðhöndlun á þessu máli búin að vera í allt sumar.“

Aðspurður hvernig hann vill glíma við vandann sem blasir við svarar Haraldur á þessa leið:

„Ég myndi vilja sjá núna að ráðherra lýsti því yfir að hún ætlaði að biðja Ríkisendurskoðun um að greina birgðir, magn þeirra og samsetningu. Greina efnahagsreikninga sláturhúsa og láta leggja mat á mögulegar hagræðingaraðgerðir.  Þá verður ráðherra að segja í fyrsta lagi: „Ég mun standa í því að hjálpa ykkur að leysa þennan birgðavanda þannig að hann verði orðinn ásættanlegur í upphafi næstu sláturvertíðar 2018.“ Þá verður ráðherra líka að segja: „Ef ég á að lýsa þessu yfir, að ég muni vilja vinna að lausn birgðamála eða koma birgðum í viðunandi horf fyrir 2018, þá verða sláturleyfishafarnir núna að hafa þor til að endurskoða þessa verðlista sem nú er búið að gefa út. Draga lækkanir að stóru hluta til baka.“

smari@bb.is

DEILA