SAUÐFJÁRRÆKT-atvinnugrein eða áhugamál?

Gunnar Rúnar Kristjánsson

Enn og aftur kvörtum við sauðfjárbændur yfir verðlagningu afurðastöðva á innlegginu okkar á hausti komanda. Ástæður er margar segja forsvarsmenn afurðastöðva s. s. að erlendir markaðir eru lokaðir og framleiðslan er langt umfram eftirspurn. Hvernig bregðumst við við? Jú við förum til stjórnvalda og biðjum um að þeir fari í aðgerðir til að bæta þetta ástand og það strax nú í haust. Ég hef fylgst með og verið innan sauðfjárgeirans frá því um 1980. Ég man ekki annað en framleiðslan hafi verið umfram eftirspurn. Einn þingmaður og ráðherra kom með þá snildarlausn að við skildum éta vandann en sú lausn hefur ekki verið notuð enn. Gripið hefur verið til ýmissa ráðstafanna til að minnka framleiðsluna.

Sauðfjárframleiðslan var kvótasett ein kjötgreina og það hamlaði mjög þróun í greininni. Um 1990 var heimiluð viðskipti með kvóta m. a. til að fækka framleiðendum og stækka búin sem eftir yrðu svona svipað og þróunin varð í mjólkurframleiðslunni. Þetta breytti litlu. Búum fækkaði lítið og þau stækkuðu lítið. Það var svo 1995 sem kvótinn í sauðfjárrækt var afnumin og framleiðslan gefin frjáls. Þannig var beingreiðsluhlutinn sem stýritæki tekið úr sambandi. Í “samningnum” frá 1995 var ákvarðað hvert ásetningshlutfallið skyldi vera án þess að beingreiðslur skertust. Tekin var upp útflutningsskylda sem bændur gátu verið undanskildir ef þeir áttu 0,7 vetrarfóðraðar kind per. ærgildi greiðslumarks. Ráðist var í öfluga markaðsetningu á lambakjöti í gegnum Áform átaksverkefni. Verkefnið skilaði nokkrum árangri en mörg mistök voru gerð. Samfara þessu var farið í að skipta beingreiðslunum þannig að hluti þeirra var eyrnamerktur gæðastýringarálagi. Það er merkilegt með gæðastýringu í sauðfjárrækt að greitt er fyrir ákveðnar skráningar s. s. áburðanotkun, lyfjanotkun og nú er skylda að vera með sauðféð í skýrsluhaldinu Fjárvís. Fyrir þetta koma greiðslur frá ríkinu sem miðast við framleiðslumagn en ekki af gæðum framleiðslunnar.

Hvernig skildi standa á því að við sauðfjárbændur röflum við eldhúsborðið en þegjum þunnu hljóði út á við. Getur verið að mestur hluti sauðfjárbænda líta á sauðfjárrækt sem lífstíl eða áhugamál? Er það eðlilegt að notað er skattfé til að greiða fyrir áhugmál eða lífstíl? Mér skilst að það er dýrt að stunda golf en samt stunda margir þá íþrótt. Mér er ekki kunnugt um að ríkið greiði fólki fyrir að spila golf. Það er að vísu líklegt að golffélög fái styrk hjá sveitarfélögunum en sá styrkur fer ekki til einstaklinga. Annað sem vert er að velta fyrir sér í þessu sambandi er að aldur sauðfjárbænda er hár og það getur líka verið skýring á því afhverju þagað er þunnu hljóði. Eldri bændurnir búa (hokra) líka flestir á skuldlausum eignum og þola meiri skerðingar.

Við fjölskyldan búum með um 250 fjár. Þegar við hjónin hófum búskap réði það mestu um ákvörðunina að ég fór í fullt starf. Annars hefðum við aldrei farið í búskapinn. Ég hef oft heyrt að ég sé hobbý bóndi en það er bóndi sem stundar vinnu utan bús skilst mér. Það skiptir engu máli hve margt sauðfjár viðkomandi er með svo framarlega sem unnið er utan bús.  Ég hef líka oft sagt mera í gamni að ég er í fullu starfi utan bús til að hafa efni á að stunda sauðfjárrækt. Hvað þarf sauðfjárbúið að vera stórt til að það skili einstaklingi sómasamlegum tekjum. Ég myndi halda að bústærðin verður að vera í kringum 800 vetrarfóðraðar kindur svo einstaklingur geti haft sómasamlegt viðurværi af atvinnugreininni. Auðvitað skiptir frjósemi og afurðasemi fjárins miklu máli líka. Hinn makinn verður þá að finna sér starf við eitthvað annað innan búsins eða utan. Við erum langt frá því að vera með bústærð af þessarri stærðargráðu. Er meðalbúið ekki um 300 vetrarfóðraðar kindur? Það sem mér finnst líka hamlandi fyrir greinina er þessi sífellda tenging við byggðapólitíkina. Ekki er í sauðfjársamningnum veittur byggðastuðningur. Að vísu er í 8 gr. samningsins gert ráð fyrir svæðisbundnum stuðningi sem nemur um 3% af heildarstuðningnum á samningstímabilinu en framleiðslutengdur stuðningur nemur 59%. Er nema von að bændur horfi til fjölgunar fjár til að viðhalda svipuðum tekjum?

Hver er vandi sauðfjárræktar og hvernig verður tekið á honum? Flestir eru sammála að framleiðslan er of mikil. Forstjóri SS og Landbúnaðarráðherra hafa nefnt að fækka þurfi ám um 20% og ég get alveg verið sammála því. Hvernig fækkum við fénu. Ein leið gæti verið að ríkið gerði samninga við bændur um fækkun fjár gegn greiðslu á 2-3 árum sem gilti út samningstímann. Fyrir hverja á sem fækkað er um verði greitt t. d. skattmat. Standi menn ekki við gerða samninga koma sektir á móti. Gera verður breytingar á núverandi búvörusamningi ef þessi leið er valin og breyta samningnum þannig að ekki verður greitt út á grip eða býli heldur fái bændur greitt fyrir t. d. landgræðsluverkefni. Þá verður að breyta álagsgreiðslum vegna gæðastýringar þannig að tekið verði mið af gæðum framleiðslunnar fyrst og fremst. Margir bændur sem ég hef talað við finnst afurðastöðvarnar ekki gera neitt eða allavega ekki nóg til að auka söluna. Yfir sumartímann eru allir kælar í verslunum troðfullir af þurrkrydduðu lambakjöti ætlað á grillið. Ef sumarið verður vott og kalt þá bregst salan af því að engin grillar. Ég hef heyrt að það er ógjörningur að selja uppþýtt kjöt nema að krydda það þannig að kjötsafinn sjáist ekki. Costco selur líka íslenskt lambakjöt sem hefur verið þýtt upp. Þeir krydda það ekki en það lítur ljómandi vel út. Þarna er eitthvað sem kjötiðnaðarmennirnir okkar geta lært s. s. hvernig kjötið er skorið.

Í desember 2015 var gefin út skýrsla sem KOM ráðgjöf vann, líklega fyrir LS og/eða Markaðsráðs Skýrslan heitir STEFNUMÖRKUN UM MARKAÐSÓKN ÍSLENSKRA SAUÐFJÁRAFURÐA. Skýrslan var m. a. unnin til að leggja fram stefnumörkun og framkvæmdaáætlun til frekari vinnu. Markmiðin voru  að hagsmunaaðilar geti rýnt í markaðinn til að finna tækifæri og möguleika og á þann hátt aukið framlegð sauðfjárbænda. Í skýrslunni var lagt til að sett yrði á laggirnar Markaðsstofa sauðfjárafurða með fimm manna stjórn, 3 tilnefndum af LS, 1 tilnefndur af BÍ og 1 frá samtökum sláturleyfishafa. Ekki skil ég afhverju var ekki hægt að nýta Markaðsráðið og fjölga í stjórn þess. Skýrslan er yfirgripsmikill og ekki vantar hugmyndir. Mér er ekki kunnugt um að þessi stefnumótun hafi verið raungerð enn og full ástæða til að dusta rykið af henni.

Eitt er ljóst. Við getum ekki haldið áfram að framleiða og framleiða kindakjöt ef engin vill borða það. Það er líka ekki réttlátt að skattgreiðendur verði látnir bera meiri og meiri byrðar vegna offramleiðslu kindakjöts. Sauðfjárrækt er þrátt fyrir allt atvinnugrein og lítur lögmálum markaðarins.

Gunnar Rúnar Kristjánsson

Sauðfjárbóndi

DEILA