Nikkurnar þandar á Norðurfirði

Á morgun verður haldið Bryggjuball í annað sinn á Norðurfirði á Ströndum og er það harmonikkan sem er í aðalhlutverki. Dagskráin hefst þó í kvöld með stemningskvöldi á Kaffi Norðurfirði en svo fer sjálft bryggjuballið fram á vörubílspalli á bryggjusvæðinu. Linda Guðmundsdóttir frá Finnbogastöðum, ætlar ásamt góðum félögum að spila á fyrir dansi í Norðurfirði. Þetta er í annað sinn sem hún heldur Bryggjuball á Norðurfirði en fyrra ballið var fyrir tveimur árum. Skemmtunin byrjar í kvöld með tónleikum á Kaffi Norðurfirði og á morgun kl. 22 verður dansinn stiginn og nikkurnar þandar á bryggjunni á Norðurfirði. Hljómsveit Lindu nefnist gleðikonurnar og spilar svokallaða klesmertónlist, sem á rætur sínar að rekja til júðskra farandtónlistarmanna í Austur-Evrópu.

Því má svo bæta við að á sunnudaginn verður Íslandsmeistaramót í hrútadómum í Sauðfjársetrinu á Ströndum.

smari@bb.is

DEILA