Merkilegir munir úr búi Friðriks Svendsen (1788–1856)

Í dag kl. 17:00 í Bryggjukaffi verður formleg afhending á fornum munum úr búi Friðriks Svendsen.

Friðrik Svendsen, sem kalla mætti fyrsta Flateyringinn, var sá sem byggði um 1820 fyrsta varanlega íbúðarhúsið á Flateyri og bjó í því á blómlegum athafnatíma sínum til dauðadags. Húsið, sem lengst af var kallað Torfahús eftir næsta eiganda þess, brann 1961 – þá mikið breytt frá því sem upprunalega hafði verið.

Af Friðriki Svendsen hafa verið sagðar áhugaverðar sögur. Má þar nefna þáttinn „Örlagsasaga úr Önundarfirði“ eftir Jón Helgason. Friðrik Svendsen hefur vafalaust verið afar sérstakur og merkilegur maður, stórhuga brautryðjandi þilskipaútgerðar á Vestfjörðum og  höfundur merkrar ritgerðar um verkun sjávarafla, sem birtist í Ámann á Alþingi árið 1831. Einnig var hann mikill áhugamaður um ræktunarstörf, meðal annars ræktun túna og ræktun kálmetis í görðum. Sjóðsstofnun sem hann beitti sér fyrir varð fyrsti vísir að því sem seinn hlaut nafnið Búnaðarfélags Íslands. Bú hans var næst stærst búanna í Önundarfirði á sínum tíma.

Börn Friðriks Svendsen af fyrra hjónabandi settust að í Danmörku með danskri móður sinni en af þremur börnum hans í seinna hjónabandi lifði aðeins dóttirin Fernandína Friðrika Málfríður. Hún settist líka að í Danmörku. Einn afkomenda hennar, Vögg Jacobsen, lést fyrir skömmu en nú hefur ekkja hans, Margrete Jacobsen, komið þremur munum úr búi Svendsen aftur til upprunalandsins Íslands. Um er að ræða útskorna rúmbrík með með höfðaletri, „logbog“ eða eins konar dagbók Friðriks Svendsen frá árunum um 1830 á Flateyri og loks mynd sem komin er úr búi hans.

bryndis@bb.is

DEILA