Laun sauðfjárbænda lækki um helming

Ef fram fer sem horfir lækka laun sauðfjárbænda um 56 prósent milli ára og nánst öll sauðfjárbú á landinu verða rekin með tapi. Þetta kemur fram í bréfi Oddnýjar Steinunnar Valsdóttur, formanns Landssamtaka sauðfjárbæna, til alþingismanna. Í bréfinu vísar hún til útreikninga sem Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarains vann fyrir samtökin.

Samkvæmt úttektinni þýðir boðuð lækkun afurðaverðs um 35% að framlegð af meðalkind lækki um 4.130 kr. frá því sem var í fyrra. Afkoma greinarinnar í heild fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta verði neikvæð um 1.463 milljónir kr. á þessu ári, en var jákvæð um 531 milljón í fyrra. Það þýðir að afkoman versnar um tæpa tvo milljarða.

Í lok bréfsins segir: „Ástæður þessarar miklu yfirvofandi lækkunar á afurðaverði til sauðfjárbænda tengjast þannig ekki með beinum hætti nýgerðum búvörusamningum og helgast að mestu af einstaklega óhagstæðum ytri aðstæðum sem bændur ráða ekki við. Þessi forsendubrestur mun koma harðast niður á þeim sveitum þar sem sauðfjárrækt er hryggjastykkið í atvinnulífi og byggðafestu. Afleiðingarnar gætu orðið fjöldagjaldþrot til sveita með tilheyrandi byggðaröskun. Þessi staða er grafalvarleg eins og bændur hafa ítrekað bent á. Margra mánaða viðræður við stjórnvöld hafa hins vegar litlu skilað. Landssamtök sauðfjárbænda telja því einsýnt að bændur og Alþingi taki höndum saman og bregðist við þessum bráðavanda án tafar.“

smari@bb.is

DEILA