Kvittar ekki upp á að loka Djúpinu

Teitur Björn Einarsson alþingismaður

Það yrði mjög afdrifarík ákvörðun að loka Ísafjarðardjúpi fyrir laxeldi líkt og Hafrannsóknastofnun leggur til, að sögn Teits Björns Einarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. „Það er ekki ásættanlegt að þessi eina skýrsla, sem er einstök, loki fyrir framþróun fiskeldis í Ísafjarðardjúpi,“ segir Teitur Björn.

Að hans mati má lesa úr áhættumati Hafrannsóknastofnunar að grípa má til margskonar mótvægisaðgerða til að bregðast við hættu á erfðablöndun. „Þannig verði hægt hefja og byggja upp fiskeldi í Djúpinu, en það segir sig sjálft að það verður ekki byrjað í 30 þúsund tonnum strax. En að byrja í nokkrum þúsund tonnum og byggja eldið upp í skrefum með hliðsjón af umhverfi og mótvægisaðgerðum er það sem við eigum að stefna að,“ segir Teitur Björn.

Hann leggur áherslu á að framþróun fiskeldis muni alltaf byggja á vísindum. „Sú framþróun verður að vera með þeim hætti að hagsmunir veiðiréttarhafa, fiskeldisfyrirtækja og samfélagsins alls fari saman og það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að finna þann meðalveg.“

Teitur Björn bendir á að árið 2004 hafi verið stigið stórt skref í að friða strandlengjuna fyrir sjókvíaeldi. „Þá var nær öllu landinu lokað nema hluta Austfjarða og Vestfjarða, þar með talið Ísafjarðardjúpi og ég sé ekki að svo stöddu að þær upplýsingar sem hafa komið fram eigi að breyta því mati og ég kvitta ekki upp á að loka Ísafjarðardjúpinu,“ segir Teitur Björn að lokum.

DEILA