Hlaupa í nafni Birkis Snæs

Það verður margt um manninn í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardag.

Öflugur hlaupahópur sem er mest megnis að vestan tekur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn. Hlaupahópurinn hleypur í nafni Birkis Snæs Þórissonar, ungs Ísfirðings, og safnar áheitum fyrir Krabbameinsfélagið Sigurvon. Fyrir rúmu ári síðan, þegar Birkir Snær var fimm mánaða gamall, greindist hann með sjaldgæft krabbamein. Hann hóf meðferð í júní í fyrra og hefur ferlið verið strembið, en mjakast hægt og örugglega í átt að bata. Krabbameinsfélagið Sigurvon á Ísafirði hefur staðið þétt við bakið á fjölskyldu Birkis Snæs og hefur sannað enn einu sinni hversu mikilvæg stoð félagið er fyrir krabbameinsveika og fjölskyldur þeirra.

Birkir Snær verður með öfluga sveit í Reykjavíkurmaraþoninu.

Markmiðið var að safna 500 þúsund krónum og hefur söfnunin gengið vonum framar. Þegar þetta er skrifað hafa safnast 800 þúsund krónur og hlaupahópurinn er hvergi nærri hættur og setur nú markið á eina milljón króna.

Sigurvon ætlar að vera með hvatningabás í hlaupinu og hvetja sitt fólk dyggilega áfram með tónlist og kúabjöllum og með stuðningi góðra fyrirtækja verður hlaupurum Sigurvonar boðið upp á ýmislegt góðgæti.

Hér er hægt heita á hlaupahópinn.

smari@bb.is

DEILA