Hagvöxtur á Vestfjörðum dregst saman

Þróunarsvið Byggðastofnunar, í samvinnu við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, hefur gefið úr skýrsluna Hagvöxtur landshluta 2008-2015 og er þetta í áttunda skipti sem slík skýrsla er unnin. Nokkrar af helstu niðurstöðum skýrslunnar eru að hagvöxtur á tímabilinu mældist 3% á höfuðborgarsvæðinu en 6% utan hans. Framleiðsla jókst mest á Suðurnesjum, Norðurlandi eystra og Suðurlandi. Lítill vöxtur var á Austurlandi og Norðurlandi vestra og að á Vestfjörðum dróst framleiðsla saman.

Í skýrslunni kemur fram að fjárhagur flestra fyrirtækja hafi batnað en þó greinilegur munur milli landshluta. Árið 2015 skulduðu útgerðir og iðnaðarfyrirtæki að jafnaði meira á Vestfjörðum en annars staðar. Þar hafði þó orðið mikil breyting til batnaðar frá 2008, þegar fjárhagsstaða greinanna var mjög slæm í þessum landshluta og raunar víðar.

Umsvif í sjávarútvegi jukust þó nokkuð á þessum árum og dreifist jafnt um landið og hlutur flestra landshluta um 15%, nema á Norðurlandi vestra þar sem hluturinn er 3% og á Vestfjörðum þar sem hluturinn er 7%. Skýrsluhöfundar telja erfiðar samgöngur meginorsök þess að hlutur Vestfjarða í sjávarútvegi hafi minnkað.

Hagvöxtur á Vestfjörðum er á þessu tímabili var flest árin minni en í öðrum landshlutum og allt tímabilið dróst framleiðsla saman um 6% og fólki fækkaði um 4%.

Sjávarútvegur er hvergi eins mikilvæg atvinnugrein og á Vestfjörðum. Um 24% ársverka á Vestfjörðum voru í sjávarútvegi árið 2015 og rúmlega 2% ársverka voru í fiskeldi. Laun á ársverk eru lægri í fiskveiðum á Vestfjörðum en annars staðar og meðallaun á ársverk í öllum atvinnugreinum eru aðeins undir landsmeðaltali árið 2015.

Fasteignaverð er hvergi lægra en þar. Staðgreiðsluverð á fermetra í sérbýli var 88-89 þúsund krónur að jafnaði árið 2015, rúm 40% af landsmeðaltali.

bryndis@bb.is

 

DEILA