Gæti orðið banabiti ungra bænda

Sláturleyfishafar boða allt að þriðjungslækkun á afurðaverði til bænda við sauðfjárslátrun í haust en 10% lækkun var á afurðaverði í fyrra.

Björn Birkisson bóndi í Botni í Súgandafirði og formaður Búnaðarsambands Vestfjarða óttast að þetta verði til þess að ungir bændur neyðist til að bregða búi enda séu þeir oft skuldugri og hafi minna svigrúm til að taka skelli sem þessa. Björn segir það hafa legið fyrir að útflutningur yrði minni og fráleitt að láta beingreiðslur til bænda hafa áhrif á verð afurða til útflutnings, hann segir að nýr búvörusamningur hafi verið ranglega kynntur með væntingum aukna sölu erlendis og á hærri verðum en til þessa hefðu fengist. Hærri verð í útflutningi áttu þarna að gefa nýjum  ( og gömlum ) aðilum kost á bættum hag með aukinni framleiðslu í hækkandi meðalverði. Þetta var óábyrgt og hefur komið í ljós að ekki var of mikið varað við þessu. Björn segir marga sauðfjárbændur hafa varað við þessari stöðu, kerfið sé framleiðsluhvetjandi og hömlulaust, búið sé að höggva burtu stjórntækið.

Björn er ekki sáttur við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur landbúnaðarráðherra, segir hana vilja sundra MS til að auka samkeppni og um leið að sameina sláturleyfishafa !

Eyjólfur Ingvi Bjarnason ráðgjafi hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins tekur að nokkru undir þessi orð Björns, ástandið hafi verið fyrirséð og grípa hefði átt til aðgerða fyrir löngu. Eyjólfur segir nokkrar ástæður fyrir auknum birgðum lambakjöts þetta haustið, ein þeirra væri til dæmis að tíð hefði verið með afbrigðum góð í fyrra og fallþungi skrokka um hálfu kílói meiri að meðaltali og það þýði um það bil 300 tonna framleiðsluaukningu. En mestu munar þó um minnkandi útflutning og nefnir þar til dæmis viðskiptabann við Rússland en þangað var talsvert flutt af lambakjöti. Noregur hefur aukið mjög sína eigin framleiðslu og þar hafa því markaðir lokast fyrir íslenskt kjöt. Eyjólfur segir lítilsháttar aukningu hafi verið í sölu á lambakjöti innanlands en það dugi ekki til.

Á Vestfjörðum eru um 80 sauðfjárbændur og fyrirsjáanlegur héraðsbrestur ef þeim fækkar verulega.

bryndis@bb.is

DEILA