Engar forsendur fyrir lokun Djúpsins

Gunnar Bragi Sveinsson.

„Mikilvægt er að Hafrannsóknarstofnun fái ráðrúm til þess að klára sína rannsóknar og þróunarvinnu. Í dag er ekki hægt að leggja þær rannsóknir til grundvallar ákvarðanatöku um framtíð fiskeldis. Sé horft til þess, mögulegra mótvægisaðgerða og hinna jákvæðu samfélagsáhrifa eru engar forsendur fyrir því að loka Djúpinu.“ Þetta kemur fram í grein Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Eitt af lokaverkum Gunnars Braga sem sjávarútvegsráðherra var að setja á laggirnar stefnumótunarnefnd í fiskeldi en hún hóf störf fyrir rétt rúmu ári.

Sveitar- og bæjarstjórar Súðavíkurhrepps, Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar gagnrýndu stefnumótunarnefndina harðlega eftir fund í síðustu viku. Í yfirlýsingu sögðu þeir að nefndin ætli ekki að taka tillit til samfélagslegra hagsmuna íbúa við Djúp af uppbyggingu laxeldis.

Í greininni segir Gunnar Bragi:

„Áhættumat Hafrannsóknarstofnunar um erfðablöndun er ágætt fyrsta skref til þess að meta áhrifin af fiskeldi betur, stofnunin nefnir hinsvegar sjálf að óvissa sé mikil um niðurstöður enda verið að beita þessari aðferðafræði í fyrsta sinn. Fram hafa komið greinargóðar athugasemdir um að ekki sé tekið tillit til fyrirbyggjandi aðgerða í skýrslunni. Auðvitað verður að gera þá kröfu að sú þekking og tækni sem sem er til staðar sé nýtt til þess að fyrirbyggja mögulegan skaða og eðlilegt að taka tillit til þess er kemur að ákvöðrun um framhald fiskeldis í Djúpinu. Nauðsynlegt er að horfa á heildarmyndina, a.m.k. var það markmið mitt er vinnan var sett af stað. Það þýðir að taka þarf einnig inn samfélagslega- og byggðalega þætti. Ekki er hægt að komast að niðurstöðu án þess að samfélagsleg áhrif séu metin.“

smari@bb.is

DEILA