Ekki hægt að láta álit Hafró sem vind um eyru þjóta

Guðjón Brjánsson

„Minn flokkur styður vitaskuld við atvinnu- og frumkvæðisstarf í hvívetna og við leggjum áherslu á að það sé gert í sátt við menn og náttúru. Það þarf ekki að fara á svig við þau markmið með uppbyggingu eldis í Djúpinu,“ segir Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi, aðspurður um niðurstöðu áhættumats Hafrannsóknastofnunar þar sem lagst er gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi.

„Því er ekki að neita að manni brá í brún við mat Hafrannsóknarstofnunar enda ljóst og leynt verið unnið að vönduðum undirbúningi starfsemi í Djúpinu,“ segir Guðjón og bætir við ekki sé hægt að láta álit Hafrannsóknastofnunar sem vind um eyru þjóta.

„Það verður ekki unnið að lausn málsins án þess að það sé gert á faglegan og vel ígrundaðan hátt. Málið er hins vegar í miðjum klíðum, ég fæ til dæmis ekki betur greint en að hægt sé að draga ýmsar ályktanir við lestur skýrslu Hafró sem ég hef þó ekki kynnt mér nægilega vel enn.“

Guðjón ætlar að fylgja málinu eftir ásamt þingmönnum kjördæmisins og segir að hann viti ekki betur en að þeir standi einhuga að baki áformum fyrir nýja atvinnugrein við Djúp.

„Það vantar hins vegar talsvert upp á að umgjörð fyrir þessa starfsemi sé traust og eftir því kalla raunar forvígismenn fyrirtækja í greininni. Umsóknir, mat, eftirlit og viðurlög, umfjöllun um þessi atriði meðal annars þurfa að vera skýr, skilvirk og raunveruleg en ekki í skötulíki eins og nú virðist vera.  Sömuleiðis þarf að ramma inn strax einfalda og gegnsæja gjaldtöku fyrir aðstöðu og aðgang að auðlindinni, það er þessu takmarkaða aðgengi að hafsvæði og tryggja ríkulega hlutdeild sveitarfélaga í þeim efnum og semja hugsanlega um hæfilegan aðlögunartíma. Um leið og ég vil árétta eindreginn vilja um að unnið verði áfram faglega að málinu með það að markmiði að uppbygging geti hafist í greininni i Djúpinu varlega og markvisst, þá tel ég rétt að doka eftir niðurstöðu stefnumótunarnefndarinnar en hennar er að vænta á næstu dögum,“ segir Guðjón.

smari@bb.is

DEILA