Bæjar- og sveitarstjórar í Vesturbyggð, Bolungarvík, Tálknafirði, Súðavík, Strandabyggð og Ísafjarðarbæ hafa óskað eftir fundi með forsætisráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Á fundinum á að ræða fiskeldismál og er einnig óskað eftir því að forstöðumenn Umhverfisstofnunar, Skipulagsstofnunar, Matvælastofnunar og Hafrannsóknastofnunar verði viðstaddir fundinn.
„Tilefni fundarins er fyrst og fremst að kalla eftir því að það verði með öllum ráðum tryggt að afgreiðsla fiskeldisleyfa verði unnin á þeim hraða sem lög og góð stjórnsýsla kveða á um, en ekki dregin mánuðum og árum saman. Sveitarfélögin geta að sjálfsögðu ekki gert kröfu um niðurstöðu slíkra afgreiðslna, en í þeim tilfellum sem slíkar afgreiðslur gætu orðið jákvæðar er mikið í húfi – bæði fyrir Vestfirði og þjóðarhag,“ segir í bréfi Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, til Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra.