Veiðigjöld tvöfaldast

Löndun á Ísafirði.

Veiðigjöld í sjávarútvegi ríflega tvöfaldast á milli ára miðað við nýja reglugerð fyrir komandi fiskveiðiár. Miðað við áætlað aflamark verður gjaldið um það bil 10,5 til 11 milljarðar króna og nemur hækkunin um 6 milljörðum frá síðasta fiskveiðiári.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sendu frá sér harðorða yfirlýsingu í gær þar sem athugasemdir eru gerðar við hækkun veiðigjaldanna fyrir næsta ár. Þar kemur fram að rekstrarskilyrði í sjávarútvegi hafi versnað og því sé óheppilegt að reiknireglan taki ekki mið af því. Samtökin telja ekki útilokað að hækkun veiðigjalda á næsta fiskveiðiári muni reynast smærri og meðalstórum útgerðum ofviða, en það gæti aukið samþjöppun í sjávarútvegi.

„Aðstæður hafa breyst mjög til hins verra á liðnum misserum; gengi krónunnar hefur styrkst og tekjur gjaldeyrisskapandi fyrirtækja dregist verulega saman. Á sama tíma hefur kostnaður í íslenskum krónum, eins og vegna aðfanga og launa, hækkað mikið,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS.

DEILA