Setja markið á fyrstu sprengingu eftir þrjár vikur

Mynd tekin af efsta palli á framkvæmdasvæðinu en þar munu rísa skrifstofur.

Undirbúningur fyrir framkvæmdir við Dýrafjarðargöng eru á fullum skriði og nú er unnið að uppsetningu vinnubúða vestan við Mjólka í Arnarfirði. Vinnubúðirnar hafa verið teknar í notkun til bráðabirgðar, en þær verða tilbúnar eftir eina til tvær vikur. Í síðustu viku lögðu starfsmenn Snerpu ehf. á Ísafirði ljósleiðara í vinnubúðirnar. Gísli Eiríksson, verkfræðingur hjá jarðgangadeild Vegagerðarinnar, segir að á miðvikudag hafi fyrsti verkfundur hafi verið haldinn á framkvæmdasvæðinu en til þessa hafa verkfundir verið haldnir á Ísafirði eða í Reykjavík. Á fundinum í síðustu viku var bókað stefna að fyrstu gangasprengingu þann 18. ágúst, en Gísli telur það nokkuð bjartsýnt markmið.

Þá er einnig unnið að gerð plana í hlíðinni utan við gangamunna fyrir verkstæðisskemmur, steypustöð og skrifstofur. Gísli segir að á svæðinu er nokkuð þykkt moldarlag og leirkennt efni undir og frekar mikil bleyta í jarðvegi sem gerir framkvæmdir seinlegar.

„Þess má geta að starfsmenn sem eru þarna halda til í húsum Mjólkárvirkjunar og fá einnig mat þar hjá heimafólki í Mjólká. Það er mikils virði fyrir verkið að samvinna við heimamenn skuli vera svo góð,“ segir Gísli.

DEILA