„Fiskeldi á Vestfjörðum hefur virkað sem kraftaverkalyf á byggðarlög, sem heltekin voru af hrörnunarsjúkdómi. Sá sem hefur vaknað eldsnemma á Bíldudal, fundið driftina í mannlífinu á leið til vinnu, orkuna, hamarshöggin og baráttuna um lausu bílastæðin, skilur hvað fiskeldi hefur fært inn í vestfirskt samfélag, líf, vöxt og menningu.“ Svo kemst Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkuhrepps og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, að orði í aðsendri grein í dag. Pétur er að svara grein sem Þröstur Ólafsson skrifaði í Fréttablaðið fyrir skemmstu. Í grein Þrastar voru laxeldisáform gagnrýnd harkalega og þá sér í lagi áætlanir um fiskeldi í Jökulfjörðum.
Pétur bendir á að sjókvíaeldi sé heimilt í Jökulfjörðum en segir jafnframt: „Það getur vel verið að Jökulfirðir verði ekki fiskeldissvæði á Vestfjörðum. Sjálfur gæti ég verið hlynntur slíkri ákvörðun. Framundan er vinna við sameiginlegt svæðisskipulag á Vestfjörðum. Þar verður m.a. leitt í ljós hvernig menn ná sameiginlegri sýn á nýtingu Ísafjarðardjúpsins, og þá Jökulfjarða. Það getur vel orðið niðurstaða að Jökulfirðir fái annað hlutverk í framtíð Vestfjarða.“