Hvetur bæinn að hækka laun í vinnuskólanum

Finnbogi Sveinbjörnsson

Verkalýðsfélag Vestfirðinga hefur skorað á yfirvöld í Ísafjarðarbæ að hækka laun 16 ára unglinga í vinnuskóla bæjarins þannig að launin svari að lágmarki 78% af launaflokki 115 í kjarasamningi Verk Vest við sveitarfélögin, eða 1.325 kr. á tímann.

Í bréfi Finnboga Sveinbjörnssonar, formanns Verk Vest, til bæjarráðs kemur fram að í könnun félagsins um laun í vinnuskólum kom í ljós að tvö sveitarfélög á starfssvæði Verk Vst uppfylla ekki lágmarksviðmið um laun sveitarfélaga og er Ísafjarðarbær annað þeirra. Í kjarasamningi Starfsgreinasambandsins við sveitarfélögin er kveðið á um að laun 16 ára unglinga skuli vera 78% af viðkomandi launaflokki.

Bréf Finnboga var tekið fyrir á fundi bæjarráðs í gær. Bæjarráð bendir á að vinnuskóli Ísafjarðarbæjar sé skóli og fari eftir öllum þeim reglum gilda um vinnuskóli. Þá er staðhæft að launakjör í vinnuskóla Ísafjarðarbæjar séu ágætlega samanburðarhæf við önnur sveitarfélög.

Í bréfi Finnboga er harmað að Ísafjarðarbær, stærsta sveitarfélagið á Vestfjörðum, sem áður greiddi hvað hæstu laun vinnuskóla á landsvísu skuli hafna hvatningu Verk Vest að laun 16 ára unglinga endurspegli launakjör samkvæmt kjarasamningum.

DEILA