Glæsileg dagskrá Act alone

Suðureyri þrifin á Act alone 2013. Mynd: Ágúst Atlason

Nú hefur Elfar Logi og hans samstarfsfólk birt dagskrá einleikjahátíðarinnar á Suðureyri Act alone. Sem fyrr er dagskráin fjölbreytt og skemmtileg og flestir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Það er Fjallkonan sem ríður vaðið fimmtudagskvöldið 10. ágúst en það er einleikur Heru Fjord sem gerir lífi langalangömmu sinnar Kristínar Dahlstedt skil en hún fæddist í Botni í Dýrafirði. Strax í kjölfarið stígur Gísli á Uppsölum á stokk en Elfar Logi hefur gert garðinn frægan víða um land á liðnu ári með þessum frábæra einleik. Kvöldinu lokar svo Eyrún Ósk Jónsdóttir með ljóðalestri á Sumarróló, viðburðinn kallar hún Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa.

Dýrðin hefst svo aftur á föstudegi kl. 19:30 með Hún pabbi sem Hannes Óli Ágústsson hefur samið og sett á svið um reynslu sína af því að eiga pabba sem breyttist skyndilega úr Ágústi Már í Önnu Margréti. Í kjölfar hennar pabba stígur ekki síðri kjarnakona á svið þar sem Þórunn Erna Clausen gerir Ferðasögu Guðríðar skil. Áfram eiga konur sviðið því kl. 22:30 flytur Ólöf Arnalds Einstaka tónleika. Það er svo Þorsteinn Guðmundsson sem ætlar kitla hláturtaugarnar fyrir svefninn með því að leika sjálfan sig.

Að venju hefst dagskrá Act alone á laugardeginum kl. 13:00 með dagskrá fyrir börnin er Íslenski fíllinn mætir með aðstoð sögumannsins Hildar M. Jónsdóttur. Þegar Íslenski fíllinn yfirgefur Suðureyri hefst götusprellið Basketball Jones en því er lýst svona í dagskrá: „sameinar freestyle körfubolta hæfileika, hefðbundnar sirkuslistir og gamanleik“. Áfram verður veisla fyrir yngri kynslóðina því Búkolla mætir upp úr klukkan 15:00 og það er Greta Clough sem túlkar hana í brúðugervi og jafnframt mun hún kenna brúðugerð. Klukkan 16:00 hefst svo sýning sem kallast Útvarps einleikir í heimahúsum þar er um að ræða þrjá einleiki: Ausa Steinberg, Djúpið og Kvöldstund með Ódó. Það er svo ekki minni maður en hann Ove sem stígur á stokk kl. 19:00 og það Sigurður Sigurjónsson sem ætlar að túlka þennan sérstaka ljúfling. Kristín Eiríksdóttir tekur við af Sigurjóni og flytur ljóð úr ljóðabókinni Kok. Eyjólfur Kristjánsson tekur í gítarinn kl. 22:30 en kvöldinu lokar una Björg Bjarnadóttir með Einstakri danssýningu.

Þetta er fjórtánda árið sem í röð sem Act alone er haldið á Suðureyri og rétt að taka fram að það er ókeypis á allar sýningar. Nálgast má allar upplýsingar um hátíðina á vefsíðu hennar.

Hér eru nokkrar myndir frá fyrri hátíðum.

This slideshow requires JavaScript.

bryndis@bb.is

 

DEILA