Endurskoðað hættumat fyrir Bíldudal

Bíldudalur. Mynd úr safni. Ljósmyndari Mats Wibe Lund.

Veðurstofan hefur endurskoðað ofanflóðamat fyrir Bíldudal eftir byggingu varnargarðs undir Búðargili og verður endurskoðað hættumat til kynningar á skrifstofu tæknideildar Vesturbyggðar frá kl. 10:00 – 15:00 fimmtudaginn 20. júlí.

Í skýrslu Veðurstofunnar kemur fram að garðurinn undir Búðargili hafi dregið mikið úr ofanflóðahættu og telst verja 58 eignir gegn ofanflóðum, af þeim voru 33 eignanna á hættusvæði C samkvæmt fyrra mati. Kaupa þurfti upp nokkur hús sem garðurinn ver ekki og er nýtingu þeirra takmörk sett. Garðurinn beinir flóðum úr Búðargildi eftir afmörkuðum farvegi til sjávar og þar má ætla að garðurinn valdi tíðari flóðum.

Einnig er til kynningar hættumat fyrir svæðið frá Stóruskriðu, nokkru innan þéttbýlisins á Bíldudal, og út fyrir byggðina að Banahlein. Á svæðinu sunnan þéttbýlisins sem viðbótarhættumatið nær til er hætta á snjóflóðum og skriðuföllum, þ.m.t. grjóthruni næst hlíðinni,ekki síst neðan Hólsgils. Afmörkuð eru hættusvæði A, B og C meðfram endilöngu fjallinu. Þrjár byggingar sunnan þéttbýlisins eru á hættusvæði B.

Í lokaorðum hættumatsins kemur fram að ofanflóðahættumat hér á landi miðast við áhættu einstaklinga, aðrar afleiðingar ofanflóða eins til dæmis eignatjón hefur ekki áhrif á hættumatið né takmarka nýtingu svæði þar sem ofanflóð eru hugsanleg.

bryndis@bb.is

DEILA