Arnarlax tapar á fyrsta ársfjórðungi

Arnarlax hf. á Bíldudal tapaði fjörutíu milljónum norskra króna, sem jafngildir tæplega 489 milljónum íslenskra króna, á fyrsta fjórðungi ársins. Fyrirtækið slátraði tvö þúsund tonnum af laxi á tímabilinu og stefnir á að slátra tíu þúsund tonnum á árinu. Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax, segir í samtali við blaðamann Fréttablaðsins að fyrirtækið áætli að hagnaður fyrirtækisins fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta, verði um tuttugu milljónir evra á þessu ári, jafnvirði 2,35 milljarða króna.

Kjartan segir fyrirtækið stefna að því að auka framleiðsluna í 12.500 tonn á næstu tveimur árum. Leyfamálin séu þó þröskuldur. Til þess að hægt sé að byggja upp meiri afkastagetu í seiðaframleiðslu þurfi stjórnvöld að skýra stöðu leyfamála og útgáfu nýrra leyfa til eldis.

DEILA