Bolvíkingar hafa nú fjárfest í því stórskemmtilega leikfangi sem ærslabelgur er. Vígsluhátíð belgsins var á þriðjudaginn var og þrátt fyrir hellirigningu mættu bæjarbúar vel á athöfnina og mikil gleði þegar fyrsti hópurinn var ræstur í hopp. Ærslabelgurinn er staðsettur neðst á Höfðastígnum hjá Tónlistarskólanum, stutt er að skreppa í sund í Musteri vatns og vellíðunar og til stendur að opna inn á leikvöllinn sem er við hliðina. Að sögn Jóns Páls Hreinssonar bæjarstjóra verða líka settir upp bekkir svo þreyttar fætur foreldra sem ekki endast eins lengi við hoppið geti hvílt lúin bein.

Hér má sjá facebook myndband sem Baldur Smári Einarsson tók þegar talið var í og glöggt má sjá gleðina. Sá hávaxni er þó allra glaðastur, jafnvel þrátt fyrir glæsilega magalendingu á blautum belgnum (ærslabelgnum).

 

DEILA