Vinátta í verki

Söfnunin Vinátta í verki gengur vel en féð sem safnað verður er til stuðnings Grænlendingum sem eiga um sárt að binda eftir að flóðbylgja skall á þorpinu Nuugatsiaq fyrir rúmri viku. Leit hefur verið hætt að þeim fjórum sem saknað er. Þetta kom fram á vef RÚV í gær. Safnast hafa yfir 25 milljónir króna og er reiknað með að söfnunin standa út næstu viku.

Haft er eftir Hrafni Jökulssyni, einum helsta forvígismanni söfnunarinnar, að söfnunin standi að minnsta kosti út næstu viku og að féð eigi að nýtast þeim sem verst urðu úti í hamförunum. Þangað til vonast hann til að sveitarfélög og ekki síður fyrirtæki taki við sér og styrki málefnið.

Það eru Hjálparstarf kirkjunnar og Kalak – vinafélag Grænlands og Íslands sem standa að söfnuninni og en Björgunarsveitin Sæbjörg birtir eftirfarandi tilkynningu á facebook síðu sinni:

Í kjölfar náttúruhamfaranna á Grænlandi leggjum við hjá Björgunarsveitinni Sæbjörgu til að við Flateyringar tökum höndum saman og sýnum góðvinum okkar Grænlendingum samhug og stuðning í verki með því að leggja okkar af mörkum við söfnun til handa þeim.
Grænlendingar studdu dyggilega við bakið á okkur og okkar samfélagi í kjölfar snjóflóðsins árið 1995 og var sá stuðningur ómetanlegur.
Björgunarsveitin Sæbjörg tekur að sér að halda utan um framlög frá Flateyringum næstu daga og mun afhenda landssöfnuninni Vinátta í Verki framlögin næstkomandi sunnudag kl. 15:00.
Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að leggja inná reikning 154-26-10272 á kennitölu 470290-2509
Stöndum saman og sýnum okkar kæru vinum þakklæti og stuðning í verki.

Björgunarsveitin Sæbjörg.

Þá er hægt að hringja í 907-2003 og leggja þannig til 2.500 krónur.

DEILA