Vestfirðingar hamingjusamastir

Vestfirðingar eru hamingjusamastir allra Íslendinga og nota minna af þunglyndislyfjum en íbúar annars staðar á landinu að því er fram kemur í nýjum lýðheilsuvísum Landlæknis. Lýðheilsuvísar, sem nú koma út í annað sinn, eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar. Þeir eru settir fram til að veita yfirsýn og auðvelda sveitarfélögum og heilbrigðisþjónustu að greina stöðu heilbrigðisumdæmanna.

Vestfirðingar nota til að mynda frekar virkan ferðamáta í vinnu og skóla en aðrir landsmenn. Þeir neyta minnst allra landsmanna af grænmeti og ávöxtum og er hlutfall nemenda í 5.-7. bekk sem hefur orðið fyrir stríðni eða einelti yfir landsmeðaltali og sýklalyfjanotkun barna (yngri en fimm ára) er sú minnsta á landinu. Þrátt fyrir að segjast vera hamingjusamastir meta hlutfallslega fleiri Vestfirðingar andlega heilsu sína sæmilega eða lélega en landsmenn að meðaltali.

DEILA