Þrjú dæmi um níðingshátt

Magnús Reynir Guðmundsson.

Hvert er hlutverk alþingismanna? Eiga þeir ekki að gæta hagsmuna þeirra kjördæma sem þeir eru kjörnir í, jafnframt því að gæta eftir bestu getu hagsmuna allra landsmanna? Er það boðlegt að þingmenn Norðvesturkjördæmis láti ekkert í sér heyra, árum og jafnvel áratugum saman, þegar þeir horfa uppá stofnanir landsins níðast á íbúum Vestfjarða, einstaklingum og fyrirtækjum, sem vilja efla og bæta hag íbúa fjórðungsins? Hér skulu aðeins nefnd þrjú dæmi um níðingsháttinn.

Teigskjarr

Fyrir áratug hefði verið hægt að leggja veg um svonefndan Teigsskóg (Teigskjarr), en aumingjaskapur, m.a. alþingismanna kjördæmisins, sem ekki hafa þorað að láta sverfa til stáls við stofnanir og atvinnumótmælendur, hefur komið í veg fyrir framkvæmdina. Í áratug hafa þingmenn ekki haft kjark til að taka á svokölluðu náttúruverndarfólki á Suðvesturhorninu, með löggjöf, sem styddist við vilja meginþorra íbúa á Vestfjörðum.

Fiskeldi

Þegar ljóst var orðið að íbúaþróun á sunnanverðum Vestfjörðum snerist við með tilkomu fiskeldis í stórum stíl, vildu einstaklingar og fyrirtæki við Ísafjarðardjúp feta í fótspor íbúa í Vesturbyggð og hefja fiskeldi. Skemmst er frá því að segja, að árum saman hafa fyrirtæki beðið eftir því að stofnanir „hins opinbera“ láti svo lítið að samþykkja (eða hafna, sem væri nú heldur hæpið ) erindi fyrirtækjanna. Þessir opinberu embættismenn hafa dregið Vestfirðinga á asnaeyrunum, árum saman, án þess að þingmenn hafi lyft litlafingri til hjálpar fólkinu á Vestfjörðum, sem allt of lengi hefur beðið eftir alvöru atvinnuuppbyggingu í landsfjórðungnum. Til hvers eru þingmenn?

Virkjun Hvalár

Í allt of mörg ár, reyndar áratugi, hafa Vestfirðingar ekki getað boðið upp á raforku til stærri verkefna og viðbætur Orkubús Vestfjarða hafa mælst í kílóvöttum en ekki megavöttum. Á sama tíma hafa aðrir landshlutar fengið raforku til stórra verkefna, eins og t.d. á Húsavík. Um nokkurn tíma hafa einstaklingar unnið að undirbúningi virkjunar, 55MW, í Strandasýslu, sem myndi gera það kleyft að hringtengja raforkukerfi Vestfjarða og bæta þar með raforkuöryggi íbúanna. Á meðan unnið er að samningum við fyrirtækið Landsnet, sem sér um aðaldreifingu raforku í landinu, nota atvinnumótmælendur, framkvæmdastjóri og formaður Landverndar m.a. tækifærið og varar við háspennulögn um Ófeigsfjarðarheiði og hnýta í leiðinni í fiskeldið og bæta svo við að best væri að gera Vestfirði alla að þjóðgarði

Um Ófeigsfjarðarheiði spurðist til þriggja ferðalanga á árinu 2016 og hafa ekki fengist fregnir af því hvernig ferðalöngunum þremur litist á að heiðin yrði hluti af  Vestfjarðaþjóðgarði. Lítið eða ekkert er vitað um skoðanir þingmanna.

Það er ekki skrýtið að íbúar Vestfjarða spyrji sig, hvaða öfl á bakvið tjöldin ráði ferðinni, þegar Vestfirðingar koma nær alls staðar að lokuðum dyrum þegar þeir leita til stofnana ríkisins um eðlilega þjónustu. Og þingmennirnir horfa til himins og segja: „Þetta er ekki okkar vandamál“.

Magnús Reynir Guðmundsson, Ísafirði

 

 

 

 

 

 

DEILA