Sýslumaður hætti við lokun í Bolungarvík

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga (FV) mótmælir harðlega ákvörðun Sýslumannsins á Vestfjörðum um lokun útibús embættisins í Bolungarvík og lýsir yfir miklum vonbrigðum með þróun opinberra starfa í Bolungarvík og víðar á Vestfjörðum.

Í ályktun stjórnar FV segir að þessi ákvörðun sé svik við starfsemi hinnar nýju þjónustumiðstöðvar í Bolungarvík. Góð sátt var um þjónustumiðstöðina sem sett var á laggirnar sumarið 2016, eftir að mikil áföll dundu á opinberri þjónustu í Bolungarvík með fyrirhugaðri lokun á póst- og bankaþjónustu ásamt því að sýslumannsembættið í Bolungarvík hafði verði lagt niður stuttu áður.

„Það er ótrúleg staðreynd að aðeins nokkrum mánuðum eftir að sýslumannsembættið á Vestfjörðum tók þátt í að opna þjónustumiðstöðina með pompi og prakt, skuli embættinu hafa snúist hugur og kjósa að leggja niður útibúið í núverandi mynd. Hafa ber í huga að farið var í stofnun á þjónustumiðstöðvar með tilheyrandi kostnaði með breytingum á húsnæði, en með stuðningi og velvilja stjórnvalda og í trausti þess að þátttakendur í verkefninu væru þar af fullum heilindum,“ segir í ályktuninni.

Stjórn FV hafnar algjörlega þeim rökum sýslumanns að þessi aðgerð sé nauðsynleg til að draga úr kostnaði. Stjórnin segir að húsnæði sýslumanns í Bolungarvík sé eitt hagkvæmasta skrifstofuhúsnæði á landinu og hentar vel til starfseminnar í Bolungarvík. „Það er óásættanlegt að íbúar Bolungarvíkur skulu einir bera kostnað af framúrkeyrslu embættisins og er í algjöru ósamræmi við fyrri yfirlýsingar embættisins og innanríkisráðherra þegar breytingar voru gerðar á sýslumannsembættunum á landinu gengu í gegn á sínum tíma.“

Stjórn FV krefst þess að Sýslumaðurinn á Vestfjörðum dragi til baka ákvörðun um að loka skrifstofunni í Bolungarvík. Jafnframt hvetur stjórn FV að stjórnvöld standi við þau loforð sem gefin voru við breytingu umdæmismarka sýslumannsembætta með lögum um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins í héraði.

Á það er minnt að ítrekað var í umræðu um málið á Alþingi og á fundum innanríkisráðuneytisins í héraði, að skoðaður yrði flutningur verkefna frá ráðuneytum til sýslumannsembætta og þar með aukið fjármagn til reksturs embættanna. Stjórn FV bendir á orð þáverandi innanríkisráðherra þegar Sýslumannsembættið á Vestfjörðum var stofnað um að „embættin verða í kjölfar breytinganna öflugri og betur í stakk búin til að taka við verkefnum og tækifæri skapast til að flytja verkefni úr miðlægri stjórnsýslu til þeirra“.

„Reynslan sýnir að hér var um innantóm loforð að ræða og stjórn FV lýsir hér áhyggjum af þróun mála til framtíðar m.a. starfsemi útibús sýslumanns Vestfjarða á Hólmavík. Jafnframt hvetur FV, sýslumann til að leita frekar leiða til að fjölga verkefnum í útibúinu í Bolungarvík og efla frekar starfsemi þess í samræmi við vilja ráðherra á sínum tíma og tryggja þjónustu við íbúa í byggðalaginu,“ segir í ályktun stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga.

 

 

DEILA