Svakalega lélegir en sigra á undraverðan hátt

Einbeittir liðsmenn FC Kareoki.

Ákveðinn antisportista kúltúr svífur yfir vötnum í heimildamyndinni Goðsögnin FC Kareoki eftir Herbert Sveinbjörnsson. Myndin, sem var frumsýnd á Skjaldborg um Hvítasunnunahelgina, fylgir samnefndu mýrarboltaliði frá því að liðið hampaði Evrópumeistaratitli í mýrarbolta árið 2014 þar til liðið fer á heimsmeistaramótið í Finnlandi árið eftir. Í gagnrýni Ásgeirs H. Ingólfssonar á vefnum klapptre.is segir hann að þrátt fyrir að leikmenn FC Kareoki eigi flestir fortíð í knattspyrnu, hafi þeir hætt í sportinu „af því þeir voru svo lélegir en fundu sig betur í leðjunni.“

Stemningin í myndinni minni Ásgeir um margt á Fótboltafélagið Fal, sem allir alvöru myndasögunördar yfir þrítugu muna eftir. „Þeir eru nefnilega svakalega lélegir en samt tekst þeim á einhvern undraverðan hátt að vinna leiki þegar á líður. Þótt aginn á liðinu sé þannig að Mourinho-ar þessa heims yrðu búnir að reyta allt hárið af sér strax eftir upphitun. Helsta afrek myndarinnar er svo myndatakan, þetta er varla auðvelt íþrótt að mynda – en marga rammana úr leikjum væri hægt að hengja upp á vegg,“ segir í gagnrýni Ásgeirs H. Ingólfssonar

DEILA