Stefnir United frá Suðureyri hreppti gullið

Tekið á því í róðrinum.

Karlalið Stefnis United sigraði í kappróðri á sjómannadeginum í Hafnarfirði, sem liðið tók þátt í líkt og undanfarin ár. Eftir stífar æfingar undanfarnar vikur var áhugi á að spreyta sig í bátnum enda færir í flestan sjó. Liðið í ár var skipað fjórum Súgfirðingum, tveimur Bolvíkingum sem báðir eiga rætur að rekja til Súgandafjarðar, og einum Kanadamanni.  Þetta lið fer í sögubækurnar sem eitt það besta á  næstum 20 ára róðrarferli félagsins.

Svo fór að Stefnir United hreppti gullið og náði glæsilegum tíma eða 1.55 og næstum 20 sekúndum á undan næsta liði, Trefjum, sem varð fyrir því óláni að brjóta eina ár strax í startinu. Trefjar hafa keppt við Stefni United í mörg ár og sýndu góðan árangur.

Í liði Stefnis voru að þessu sinni þeir Eyþór Eðvarðsson, Stefán Þór Pálsson, Kjartan Pálsson, Svanur Wilcox, Guðbrandur Benediktsson, Gestur Kr. Pálmason og Jamie Greig.  Markmiðið er sett á enn ein gullverðlaun að ári.

DEILA