Starfsleyfi Háafells fellt úr gildi

Úrsk­urðar­nefnd um­hverf­is- og auðlinda­mála ógilti í gær starfs­leyfi Um­hverf­is­stofn­un­ar varðandi 6.800 tonna sjókvía­eldi regn­bogasil­ungs Háafells ehf. í Ísa­fjarðar­djúpi sem gefið var út 25. októ­ber á síðasta ári. Háafell er dótturfyrirtæki Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf.

Það var Geiteyri ehf. og Ak­ur­holt ehf., sem eig­end­ur Haffjarðarár í Hnappa­dal, Veiðifé­lag Laxár á Ásum, Atli Árdal Ólafs­son, sem eig­andi hluta veiðirétt­ar í Hvanna­dalsá, Langa­dalsá og Þverá í inn­an­verðu Ísa­fjarðar­djúpi, og Varp­land ehf., eig­andi hluta veiðirétt­ar í Langa­dalsá og Hvanna­dalsá í inn­an­verðu Ísa­fjarðar­djúpi, sem kærðu ákvörðun Um­hverf­is­stofn­un­ar um út­gáfu starfs­leyf­is til Háa­fells.

Kæru Geiteyrar ehf., Akurholts ehf. og Veiðifélags Laxár á Ásum var vísað frá með þeim rökum nefndarinnar að kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Kröfur annarra kærenda voru hins vegar teknar til efnismeðferðar.

Í úr­sk­urðinum seg­ir m.a. að yfir all­an vafa sé haf­in sú laga­skylda allra leyf­is­veit­enda að taka rök­studda af­stöðu til álits Skipu­lags­stofn­un­ar um mat á um­hverf­isáhrif­um þeirra fram­kvæmda sem til um­fjöll­un­ar eru og kynna sér mats­skýrslu fram­kvæmdaaðila. Í rök­studdri af­stöðu leyf­is­veit­anda verði að fel­ast efni rök­stuðnings sem upp­fyll­ir áskilnað 22. gr. stjórn­sýslu­laga þar um.

Þá seg­ir að álit Skipu­lags­stofn­un­ar hafi verið þess efn­is, að helstu nei­kvæð áhrif fyr­ir­hugaðs fisk­eld­is fæl­ust í auk­inni hættu á að sjúk­dóm­ar og laxal­ús bær­ust í villta lax­fiska­stofna á svæðinu og að regn­bogasil­ung­ur slyppi úr eldi í mikl­um mæli og kynni að hafa nei­kvæð áhrif á orðspor viðkom­andi veiðiáa ef hann veidd­ist þar í um­tals­verðu magni.

Í starfs­leyf­inu hafi hvergi verið nefnt að mat á um­hverf­isáhrif­um hafi farið fram og að álit Skipu­lags­stofn­un­ar þar um liggi fyr­ir. Þá seg­ir í úr­sk­urðinum, að ekki verði fram hjá því litið að án til­vís­un­ar til álits Skipu­lags­stofn­un­ar og um­fjöll­un­ar um ein­stök efn­is­atriði þess, eft­ir því sem at­vik gefa til­efni til, sé ekki við því að bú­ast að aðili geti skilið hvers vegna niðurstaða máls hef­ur orðið sú sem raun varð á.

Loks væri ekki vikið að því í starfs­leyf­inu hvort mat á um­hverf­isáhrif­um á mis­mun­andi val­kost­um fram­kvæmd­ar­inn­ar hafi farið fram.

 

DEILA