Sögulegt samkomulag í höfn

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar (t.v.) og Marinó Hákonarson undirrituðu samkomulagið í gær.

Í gær var undirritað samkomulag milli Ísafjarrðarbæjar Hestamannafélagsins Hendingar. Samkomulagið felur í sér bætur fyrir aðstöðumissi hestamanna í Hnífsdal. Reiðvöllur Hendingar fór undir framkvæmdasvæði Bolungarvíkurganga og hefur verið deilt um bætur í hartnær áratug. Í samkomulaginu felst að meðal annars að Ísafjarðarbær og Hending stofna með sér einkahlutafélag sem ætlar að reisa reiðhöll í Engidal. Bærinn leggur 30 milljónir kr. inn í hlutafélagið og til viðbótar koma 20 milljóna kr. bætur frá Vegagerðinni vegna aðstöðumissis Hendingar á Búðartúni í Hnífsdal.

Marinó Hákonarson, formaður Hendingar, segir að báðir aðilar megi vera sáttir með samkomulagið. „Það er búið að deila um þetta lengi og nú er komin niðurstaða sem er það mikilvægasta. Ég er ekki í nokkrum vafa um að reiðhöll á eftir að vera mikil lyftistöng fyrir hestaíþróttina á svæðinu,“ segir Marinó.

Samkvæmt áætlunum á bygging hússins að hefjast í lok sumars. Marinó segir að ef allt gangi eftir verði húsið tilbúið í vetur.

DEILA