Skoðar ívilnanir á landsbyggðinni

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Í drögum að nýrri byggðaáætlun er að finna tillögur um ívilnanir til fólks á svæðum sem glíma við fólksfækkun. Tillögurnar lúta meðal annars að afskriftum á hluta námslána, álagi á barnabætur, niðurgreiðslu ferðakostnaðar og stiglækkandi tryggingagjaldi eftir fjarlægð frá Reykjavík. Í svari Jóns Gunnarssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn Þórunnar Egilsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um vinnu við gerð sjö ára byggðaáætlunar segir að hann hafi óskað sérstaklega eftir því að kannað verði hvort Ísland ætti að taka upp byggðakort. Á slíkum kortum eru skilgreind svæði þar sem byggðastuðningur er heimill. Jón segir að með því væri horft sérstaklega til þeirra svæða sem eru einangruð og atvinnuuppbygging erfið.

„Augljós rök standa til þess að fyrir hendi sé ákveðinn hvati í því skyni að styrkja undirstöður þeirra svæða sem standa höllum fæti og að þau fái meiri stuðning frá ríkisvaldinu en hin sem eru nærri höfuðborgarsvæðinu og þurfa ekki eins mikinn stuðning til uppbyggingar, til að mynda í atvinnulífinu,“ segir í svari Jóns. Þar segir jafnframt að haldið verði áfram með verkefnið brothættar byggðir og verklag þess þróað til að árangurinn verði sem mestur.

DEILA