Skaginn 3X landar stórum sölusamningi

Frá vinstri: Thomas Williksen frá Krakøy Slakteri, Ragnar Gudmundsson sölustjóri Skagans 3X í Skandinavíu og Roger Sorgård frá Krakøy Slakteri.

Skaginn 3X og norska laxavinnslan Kråkøy Slakteri skrifuðu nýlega undir samning um kaup þess síðarnefnda á SUB-CHILLING™ kerfi. Þetta er annað SUB-CHILLING™ kerfið sem selt er til Noregs sem af er þessu ári en uppsetning á fyrsta kerfinu lauk í apríl. Hér á landi hafa Arnarlax, Fisk Seafood og HB Grandi þegar innleitt SUB-CHILLING™ í sína framleiðslu. Kerfið sem selt hefur verið til Kråkøy Slakteri verður stærsta SUB-CHILLING™ kerfi sem Skaginn 3X hefur framleitt fram að þessu, með vinnslugetu upp á 25 tonn á klukkustund.

Kråkøy Slakteri er laxavinnsla sem er staðsett í Roan í Suður-Þrændalögum í Noregi. Fyrirtækið slátrar fyrir stóra laxaframleiðendur á svæðinu og fjárfesting þeirra í SUB-CHILLING™ er partur af stærri fjárfestingu við að stækka verksmiðjuna. Roger Sorgård, eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að þegar farið hafi verið í að skoða þær lausnir sem í boði voru, þá hafi vörugæði og stöðugleiki í framleiðslu haft mest um það að segja hvaða leið var valin.

„Við erum stolt af því að vera meðal fyrstu laxavinnslna í Noregi til þess að innleiða þessa nýju vinnslutækni. Með tilkomu SUB-CHILLING™ þá munum við geta boðið viðskiptavinum okkar upp á betri gæði og meira virði þar sem okkar vara mun hafa töluvert lengra geymsluþol í samanburði við hefðbundnar vinnsluaðferðir“ er haft eftir Roger Sorgård í tilkynningu.

Frábrugðið hefðbundnum vinnsluaðferðum, getur SUB-CHILLING™ aðferðin kælt fisk niður undir -1°C á skömmum tíma, án þess þó að frysta fiskinn. Þessi nýja tækni hefur vakið mikla athygli á alþjóðavísu og hefur Skaginn 3X hlotið fjölda verðlauna að undanförnu, þar með talið Nýsköpunarverðlaun Íslands, Útflutningsverðlaun forseta Íslands og framúrstefnuverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar.

DEILA