Rökrétt að auka fiskeldi í Skutulsfirði

Sjókvíar Hábrúnar í Skutulsfirði.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar tekur vel í áform Hábrúnar ehf. um aukið fiskeldi í Skutulsfirði. Fyrirtækið áformar að auka eldi á regnbogasilungi úr 200 tonnum í 1.000 tonn. Í umsögn nefndarinnar segir að áform Hábrúnar sé rökrétt framhald á góðum árangri við eldi regnbogasilungs og áframeldis á þorski í firðinum. Í umsögninni er tekið fram að eldi á þessu svæði hafi verið án áfalla frá upphafi, síðustu 20 ár, og á þeim tíma hafi ekki sloppið fiskur úr kvíum. Eldissvæðið er utan siglingaleiðar og hefur það ekki haft áhrif á siglingar skipa, legu skemmtiferðaskipa á firðinum né heldur aðrar sjávarnytjar á svæðinu.

Skipulags- og mannvirkjanefnd að stækkað eldi Hábrúnar þurfi ekki að fara í umhverfismat miðað við þær forsendur sem gefnar eru upp í skýrslu fyrirtækisins til Skipulagsstofnunar og með tilliti til staðsetningar, umfangs og afturkræfi eldisins. Nefndin bendir á að komi til aukningar í firðinum með gæti þurft að huga að sammögnunaráhrifum. Nefndin vísar jafnframt til skýrslu Hafrannsóknastofnunar frá 2017 um burðarþol Ísafjarðardjúps og að aukið eldi verði að rúmast innan þess.

Nendin tekur fram í umsögninni að hún telji að skipulagsvald yfir strandsvæðum eigi að fela sveitarfélögum og skilja það þannig frá skipulagsvaldi yfir hafsvæðum sem ætti að vera á hendi ríkisvaldsins. Að frumkvæði sveitarfélaga á Vestfjörðum og Fjórðungssambands Vestfirðinga var unnin nýtingaráætlun fyrir Arnarfjörð og nefndin segir það mjög miður að ríkisvaldið hafi ekki séð ástæðu til að samsvarandi vinna hafi farið fram á strandsvæði Ísafjarðardjúps.

DEILA