Njarðvíkingar komust á toppinn

Frá leik Vestra fyrr í sumar.

Vestramenn riðu ekki feitum hesti frá viðureign sinni við Njarðvíkinga á Torfnesvelli á laugardag. Leikurinn var afar mikilvægur fyrir bæði lið til að tryggja stöðu sína á toppbaráttu í annarri deildinni. Heimamenn sýndu mikla gjafmildi í leiknum og eftir 20 mínútna leik komst Njarðvík yfir með sjálfsmarki Vestra. Í hálfleik voru Njarðvíkingarnir komnir með tveggja marka forystu með marki Andra Fannas Freyssonar á 35. mínútu. Aurelien Forest minnkaði muninn með marki á 61. mínútu en það dugði skammt, því  Arnar Helgi Magnússon jók forystu Njarðvíkinga einungis fimm mínútum síðar. Þegar tvær mínútur voru komnar fram fyrir venjulegan leiktíma minnkaði Þórður Gunnar Hafþórsson muninn fyrir Vestra en Krystian Wiktorowicz svaraði um hæl með fjórða marki Njarðvíkur og sárt 2-4 tap heimamanna staðreynd.

Njarðvík er í efsta sæti 2. deildarinnar með 17 stig, jafnmörg stig og Magni, en markatala Njarðvíkinga er hagstæðari.

Vestri er í þriðja sæti deildarinnar með 13 stig.

DEILA