Nauðsynlegt og eðlilegt að sveitarfélögin fái skipulagsvaldið

Ísafjarðarbær telur að skipulagsvald yfir strandsvæðum ætti að fela sveitarfélögum og skilja það þannig frá skipulagsvaldi yfir hafsvæðum sem ætti að vera á hendi ríkisvaldsins. Slíkt fyrirkomulag er í eðlilegu og nauðsynlegu samhengi við skipulagsvald sveitarfélaga og styrkir um leið staðbundna sjálfbæra samfélagsþróun, náttúruvernd, atvinnulíf, og atvinnuþróun. Þetta kemur fram í umsögn bæjarstjórnar um frumvarp umhverfisráðherra um skipulag á haf- og strandsvæðum.

Að mati bæjarstjórnar, fer forgörðum kjörið tækifæri til valdeflingar sveitafélaga og eflingu þátttökulýðræði verði frumvarpð að lögum í óbreyttri mynd.

Víða um heim eru strandsvæðin innan einnar sjómílu utan við grunnlínu á skipulagsvaldi sveitarfélaga – þannig er það í Noregi. Í Svíþjóð og Finnlandi eru skipulagsmörk sveitarfélaga 12 sjómílur utan grunnlínu. Að auki miðast vatnatilskipun Evrópusambandsins við eina sjómílu utan við grunnlínu.  Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar sér tæpast ástöðu til þess fyrir Íslendinga að halda í flókna og svifaseina miðstýringu að svo miklu leyti sem hægt er að greiða úr málum með skipulagsvaldi sveitarfélaga og því íbúalýðræði sem því fylgir. Að mati bæjastjórnar má gera ráð fyrir að skipulagsmál yrðu skilvirkari, heildstæðari og einfaldari ef skipulagsvald á strandssvæðum yrði fært til sveitarfélaga.

Lágmarksbreytingar til þess að frumvarpið geti orðið að lögum í sátt telur bæjarstjórn að séu eftirfarandi:

  • Að kveðið yrði á um að stefnt skuli að tilraunum með að færa vald yfir strandsvæðaskipulagi til sveitarfélaga, jafnvel þó að á öðrum stöðum verði svæðisráð rekin samhliða. Sveitarfélög á Austfjörðum og Vestfjörðum liggja sennilega best við þessari tilraun þar sem mikil umræða hefur farið fram á þeim svæðum um þessi mál og góð reynsla komin á skipulagsferli og áætlanir.
  • Að í svæðisráði sem kveðið er á um í frumvarpinu hafi aðliggjandi sveitarfélög aukið vægi í svæðisráðinu auk þess sem sveitarfélögin hafi neitunarvald líkt og fulltrúar þeirra fimm ráðuneyta sem koma að svæðisráðinu.
  • Í fumvarpinu kemur fram: „ Við vinnslu frumvarpsins kom skýrt fram að brýnt væri að vinna sem fyrst strandsvæðisskipulag fyrir Vestfirði sökum mikillar eftirspurnar þar.“ Mikil eftirspurn og áform eru um laxeldi á Austfjörðum og því mikilvægt að farið verið strax í samskonar vinnu á Austfjörðum og kveðið er á um í frumvarpinu að verði á Vestfjörðum.“
DEILA