Stofn landsels er aðeins um 7.700 dýr, samkvæmt talningu sumarið 2016. Stofninn hefur því minnkað um tugi prósenta frá síðustu talningu árið 2011. Þá var stofninn metinn 11 til 12 þúsund dýr eða sami fjöldi og stjórnunarmarkmið stjórnvalda frá 2006 hljóðar upp á.
Þetta kom fram á fundi Hafrannsóknastofnunar á þriðjudag í síðustu viku og greint er frá í Fiskifréttum. Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar mæla með að stjórnvöld leiti leiða til að koma í veg fyrir beinar veiðar á landsel og lágmarka meðafla landsela við fiskveiðar. Þá telja sérfræðingarnir nauðyn að lögbinda veiðistjórnunarkerfi sem og skráningar á öllum selveiðum.
Kerfisbundin fækkun landsels má rekja til þess þegar Hringormanefnd var stofnuð af sjávarútvegsráðherra árið 1979. En ljóst er að núverandi stofnstærð er tæplega 80 prósent minni en þegar stofninn var fyrst metin árið 1980. Hann var þá um 33 þúsund dýr en fjöldinn minnkaði hratt fram til 1989 og var þá um 15 þúsund dýr.
Er talið að þar sem afföll vegna óbeinna veiða er talin hafa minnkað undanfarin ár, og dregið hefur úr hefðbundinni nýtingu selabænda á stofninum, er nærtækustu skýringuna á fækkun landsels að finna í veiðum í ósum laxveiðiáa, óskráðum veiðum eða óhagstæðum umhverfisbreytingum.
Takmörkuð gögn eru til um óbeinar veiðar en mat sem unnið er úr gögnum sem safnað er af veiðieftirlitsmönnum og úr stofnmælingu í netum benda til að um 40 landselir hafi veiðst að meðaltali í þorskanet á árunum 2010–2015, um 340 landselir að meðaltali í grásleppunet árin 2013–2015 og um 43 landselir hafi að meðaltali fengist í botnvörpu árin 2014 og 2015.