Minningarmót um Inga Magnfreðsson

Ingi (lengst til hægri) með félögum sínum í golfklúbbnum.

Golfklúbbur Ísafjarðar ætlar í samstarfi við Kristján Andra Guðjónsson og Hótel Ísafjörð að halda minningarmót um Inga Magnfreðsson sem féll frá í desember í fyrra. Ingi var einn af þeim sem barðist fyrir því að fá golfvöll í Tungudal og var óþreytandi við að vinna óeigingjarnt starf fyrir klúbbinn. Í tilkynningu frá Golfklúbbi Ísafjarðar segir að gaman væri að sem flestir kylfingar sjái sér fært að taka þátt í mótinu og heiðra minningu fallins félaga sem kvaddi allt of fljótt.

Mótið verður haldið mánudaginn 5. júní, annan í hvítasunnu, og hefst klukkan 09:00. Leikinn verður höggleikur með og án forgjafar og vegleg verðlaun í boði. Skráning á golf.is

Eftir mót verður verðlaunaafhending og síðan ætlar Hótel Ísafjörður að grilla ofan í mannskapinn.

DEILA