Málþing um framtíð Árneshrepps

Frá Árneshreppi

Helgina 24. til 25. júní næstkomandi verður efnt til málþings um framtíð Árneshrepps í tilefni af áformum um Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði. Málþingið stendur frá kl. 13 – 18 laugardaginn 24. júní og frá kl. 12.30 – 16 sunnudaginn 25. júní, í félagsheimilinu í Trékyllisvík. Nánari upplýsingar um málþingið má nálgast á Facebook síðu þess.

Í tilkynningu segir að markmið málþingsins sé að skapa rými til opinnar og faglegrar umræðu um virkjunaráform á svæðinu. Skipulagshópur málþingsins, sem samanstendur af íbúum og velunnurum Árneshrepps, telur að þær forsendur sem lágu til grundvallar samþykktar Hvalárvirkjunar í aðalskipulagi Árneshrepps árið 2014 kalli á endurskoðun þar sem margt hafi breyst. Því sé nauðsynlegt að efna til gagngerrar og víðsýnnar umræðu og skoða betur þá kosti eða galla sem virkjun hefur í för með sér fyrir Árneshrepp, samfélagið og framtíðarmöguleika svæðisins.

Endanleg dagskrá mun liggja fyrir síðar en eftirtöldum aðilum hefur verið boðin þátttaka:

Vesturverki, Fjórðungssambandi Vestfjarða, Orkubúi Vestfjarða, hreppsnefndarmönnum í Árneshreppi, Vegagerðinni, Landsneti, Skipulagsstofnun og Landvernd.

Þá geta einstaklingar óskað eftir að skrá sig á mælendaskrá á netfangið: arneshreppurogframtidin@gmail.com

Sunnudaginn 25. júní kl. 12.30 munu einstaklingar með mismunandi bakgrunn taka til máls. Má þar nefna fjalldalabónda, bókmenntafræðing og rithöfund, æðarbónda, þjóðmenningarbónda, íslenskufræðing og þjóðfræðinga.

Þar munu koma fram hugmyndir um menningarþjóðgarð, Jón lærði mætir, guð hins smáa fær pláss, og rætt verður um náttúrusýn, tilfinningar, álagabletti, galdra og annað sem tengist menningararfleifð og náttúrugæðum staðarins. Þá verða umræður um vægi þingsályktunar frá 2003 um verndun búsetu- og menningarlandslags.

Fundarstjóri er Pétur Húni Björnsson þjóðfræðingur

DEILA