Lögreglan fær að rannsaka farsíma

Lögreglustjórinn á Vestfjörðum hefur fengið heimild frá Hæstarétti til að rannsaka gögn úr farsímum tveggja grunaðra fíkniefnasala. Par var handtekið í maílok og fundust á því, á heimili þess og í ruslafötu við heimilið samtals um 100 grömm af amfetamíni og tæp 150 grömm af kannabisefnum sem lögregla ætlar að hafi verið til dreifingar og sölu. Lögreglan á Vestfjörðum fór fram á að fá afhent gögn frá fjórum fjarskiptafyrirtækjum um símanotkun kærðu sem og heimild til að rannsaka gögn innan úr símunum.

Í úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða frá 6. júní var fallist á kröfu lögreglunnar. Úrskurðinum var skotið til Hæstaréttar af kærðu og í gær staðfesti Hæstiréttur úrskurð Héraðsdóms um að lögreglan fái gögnin innan úr farsímunum, en vísaði frá hinu málinu, sem laut að upplýsingum frá fjarskiptafyrirtækjunum. Ástæða frávísunarinnar var sú að upplýsingarnar höfðu þegar verið afhentar og lögregla var byrjuð að vinna úr þeim.

DEILA