Lambi lógað eftir að það lenti í minkaboga

Lóga þurfti lambi sem lærbrotnaði eftir að hafa stigið í minkaboga við bæinn Svarthamar í Álftafirði. „Það getur enginn losað sig úr þessu. Þessir bogar valda mikilli hættu bæði fyrir skepnur og börn,“ segir Guðmundur Halldórsson, bóndi á Svarthamri í samtali við fréttavef RÚV. Guðmundur kveðst ekki vita hver setti minkabogann upp við bæinn en vonar að viðkomandi gefi sig fram. Hann segir minka ekki hafa verið til vandræða á svæðinu og óttast að það af öðrum ástæðum en þörf sem fólk eltist við þá.

Samkvæmt lögum er notkun á slíkum bogum leyfileg en óhætt er að segja að bogarnir eru umdeildir. Formaður Dýraverndunarsambands Íslands segir í frétt RÚV að fráleitt sé að taka eina dýrategund út fyrir sviga og leyfa á henni pyntingar.

„Það er eins og löggjafinn hafi tekið minkinn út fyrir sviga. Það má drekkja honum einum dýra. Samkvæmt lögum er það annars dýraníð að drekkja dýrum, en ekki þegar minkurinn á í hlut,“ segir hún og nefnir að eigandi hunds sem drekkti honum hafi hlotið dóm fyrir athæfið.

Dýraverndunarsambandið er afar ósátt við að minkabogarnir séu leyfilegir og kallar eftir mannúðlegri aðferðum við skipulagðar veiðar af þessu tagi.

DEILA