Knattspyrnuhúsið rísi á gervigrasvellinum

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að áformað knattspyrnuhús á Torfnesi verði byggt á gervigrasvellinum. Þrjár staðsetningar á Torfnesi voru til skoðunar hjá skipulags- og mannvirkjanefnd og nefndin lagði til við bæjarstjórn að húsið rísi á gervigrasvellinum. Sigurður Jón Hreinsson, formaður skipulags- og mannvirkjanefndar og bæjarfulltrúi meirihlutans, lagði fram breytingartillögu á fundi bæjarstjórnar í gær þess efnis að halda opnum möguleika á að húsið rísi við íþróttahúsið – milli grasvallar og íþróttahússins.

Breytingartillagan var felld með atkvæðum minnihlutans en bæjarfulltrúar Í-listans, að Sigurði Jóni frátöldum, sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Í minnisblaði Verkís kom fram að grundun og undirbúningur lóðar fyrir knattspyrnuhús væri allt að 90 milljónum krónum dýrari á svæðinu við íþróttahúsið borið saman við gervigrasvöllinn.

Tillaga skipulags- og mannvirkjanefndar var samþykkt með átta atkvæðum en Nanný Arna Guðmundsdóttir (Í-lista) sat hjá.

Teikning Verkís sem sýnir hlutföll hússins og skerðingu á útsýni frá Miðtúni miðað við að húsið verði á gervigrasvellinum.
DEILA