Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra kynnti í dag nýja verkáætlun um máltækni fyrir íslensku á árunum 2018-2022. Markmið hennar er að íslensku verði að finna í öllum tækjabúnaði og í hugbúnaði stærstu tæknifyrirtækja heims.
Raddstýring alls kyns tækja og tóla verður regla í náinni framtíð en þau skilja ekki íslensku í dag. Úr því þarf að bæta til að tryggja framtíð íslenskunnar í stafrænum heimi ásamt því að finna leiðir til að byggja upp vélar sem geta þýtt erlendan texta yfir á íslensku og öfugt.
„Það er ríkur vilji stjórnvalda að hrinda í framkvæmd verkáætlun fyrir máltækni til næstu fimm ára og tryggja þannig að íslenskan verði fullgilt tungumál í stafrænum heimi. Ábyrgðin liggur þó ekki einvörðungu hjá stjórnvöldum heldur okkur öllum; fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum. Það hversu vel við hlúum að tungu okkar mun ráða úrslitum um stöðu hennar í framtíðinni,“ segir Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra.
Þegar verður hafist handa við fjölmörg verkefni á þessu ári en meginþungi vinnunnar fer fram á árunum 2018-2022. Tími til stefnu er naumur vegna þess að gervigreind og máltækni í heiminum þróast á ógnarhraða og mikilvægt að Ísland sitji ekki eftir.
Bylting er að eiga sér stað en þetta málefni varðar hvert einasta heimili í landinu, atvinnulífið, menntastofnanir og stjórnvöld. Aðeins með samstilltu átaki er hægt að byggja upp innviði íslenskunnar þannig að hún hörfi ekki fyrir öðrum tungumálum í daglegu lífi fólks vegna tæknibreytinga.