Hreppsnefnd gefur grænt ljós á rannsóknarleyfi

Ós Hvalár í Ófeigsfirði.

Hreppsnefnd Árnesshrepps hefur fyrir sína parta gefið grænt ljós á að frekari rannsóknarvinna til undirbúnings virkjunar í Hvalá geti hafist. Nefndin hefur þó ekki gefið endanlegt framkvæmdaleyfi, en rannsóknarvinnan gæti hafist í sumar með tilheyrandi vegagerð og jarðraski. Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu RÚV.

Til að ljúka við rannsóknir á Hvalárvirkjun þarf að koma jarðbor upp á Ófeigfjarðarfeiði til að kanna berglög og það krefst það vegagerðar upp á heiðina. Hreppsnefnd vann í vetur að breytingum á aðalskipulagi Árneshrepps sem fyrrnefnd vegagerð kallar á, en einnig er í nýju skipulagi gert ráð fyrir vinnubúðum fyrir rannsóknarmenn.

Um helgina var haldið málþing í Trékyllisvík um Hvalárvirkjun. Um 70 manns mættu á málþingið sem var ætlað að opna á umræðuna um virkjunina og koma sjónarmiðum sem flestra á framfæri.

DEILA